Sýnin um hálendisþjóðgarð sem kynnt er í sameiginlegri viljayfirlýsingu fjölmargra samtaka í náttúruvernd, útivist og ferðaþjónustu virðist heilla frambjóðendur til embættis forseta Íslands.

Við könnuðum afstöðu allra forsetaframbjóðendanna til viljayfirlýsingarinnar og spurðum: Styður þú þá sýn sem fram kemur í viljayfirlýsingu samtakanna um hálendisþjóðgarð?

Svör bárust frá Höllu Tómasdóttur, Hildi Þórðardóttur, Guðrúnu Margréti Pálsdóttur, Elísabetu Jökulsdóttur og Andra Snæ Magnasyni.

Guðni Th. Jóhannesson, Davíð Oddsson, Sturla Jónsson og Ástþór Magnússon svöruðu ekki.  

Hér eru svörin sem okkur bárust:

Halla:  

Í miðhálendi Íslands eru fólgin ein mestu verðmæti sem land okkar býr yfir. Náttúrufegurð þessa mikla svæðis er einstökog það er höfuðnauðsyn að nýtingu og vernd þess verði stýrt af skynsemi og forsjálni. Verðmætamat manna breytist með tímanum, það sem menn sáu áður sem illvígar auðnir og ófæra farartálma, sjá menn nú sem ósnortna, stórbrotna og einstaka náttúru. Á okkur hvílir sú ábyrgð að spilla ekki þeim verðmætum sem okkur er falið að gæta – við eigum þau ekki ein, þetta eru verðmæti á alheimsmælikvarða og þau eru líka verðmæti komandi kynslóða. Þess vegna tel ég að hugmyndin um miðhálendið sem þjóðgarð geti verið skynsamleg. Það þarf samhæfða stjórn – það gengur ekki að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir og svæðinu sé stýrt í smábrotum.  Þá er hætt við að heildin verði eyðilögð. En um leið tel ég mjög mikilvægt að ná skilningi og sátt um hvernig best er að gera þetta. Það þarf að skapa víðtækar umræður um það í samfélaginu – og þá meina ég samtal ekki þras. Ég tel rétt að þjóðin fái aðild að þessu samtal og einnig að leitað verði í reynslubrunn annarra þjóða. Þar tel ég að forseti geti komið að gagni, með því að standa fyrir þjóðfundum, opnum umræðum og kynningum á kostum og göllum hugmyndarinnar. Við þurfum að ná sátt um þetta mikilvæga mál. Upplýsing og samtal eru forsendur skilnings og sáttar.   

Hildur:

Ég er fylgjandi því að hálendið sé verndað fyrir frekari virkjunum og að náttúran og dýralífið gangi fyrir þegar umgengni og nýting er ákvörðuð. Hvort sem stofnaður verður þjóðgarður eða hvaða form verður á þessu friðlandi, finnst mér mikilvægt að taka tillit til sjónarmiða allra sem hafa notað hálendið hingað til. Náttúruverndarsinnar, ferðamálageirinn, jeppaferðalangar, frístundaskotveiðimenn, göngufólk, orkufyrirtækin og allir sem hafa áhuga eða þekkingu á málinu þurfa að setjast niður og finna lausnir sem allir una sáttir við og stuðla að sjálfbærni og verndun náttúrunnar. Ég persónulega er ekki fylgjandi frekari virkjunum nema kannski örfáum litlum virkjunum,nálægt þéttbýli. Ég er alls ekki hlynnt sæstreng til Evrópu, því ég tel að það muni hækka rafmagnsverð hér innan lands fyrir utan að þá verður eilíf krafa um að framleiða meira rafmagn með tilheyrandi virkjunum. Mér finnst mikilvægt að við förum að umgangast náttúruna af virðingu og hætta að líta svo á að við séum yfir hana hafin og höfum frjálsan umráðarétt yfir henni. Við erum ekki yfir náttúruna eða dýrin hafin og það er ekkert gefið að Móðir jörð vilji hafa okkur áfram. Umgöngumst hana af virðingu hvar sem við erum, ekki bara uppi á hálendi, heldur alls staðar. 

Guðrún Margrét: 

Mér finnst þetta mjög falleg sýn og ég er hlynnt náttúruvernd. Það sem ég hef aðallega verið að hugsa varðandi þetta er að útiloka ekki aðgengi og sjálfbæra nýtingu á svo stórum hluta landsins. Ef hægt er að ná samkomulagi um veg yfir Kjöl t.d. og leysa rafmagnsmál landsbyggðarinnar með góðum hætti þá sé ég í sjálfu sér ekkert til fyrirstöðu um slíkan hálendisþjóðgarð. Þó vil ég að haldið sé áfram tilraunum með skógrækt á hálendinu þar sem það er mögulegt eins og verið að reyna á Kili að mér skilst. Þar var landið skógi vaxið sem sést bæði á örnefnum og lurkum í jörðu. Mér finnst æskilegt að endurheimta skóg þar sem möguleiki er á.

Elísabet:

Afskaplega stórhuga og djörf ákvörðun sem ber að styðja, ein af þessum mikilvægu og stóru ákvörðunum sem Íslendingar taka þegar best liggur á þeim og þegar best gengur. Þegar við brjótumst út úr gamla hlutverkinu að vera kúguð eða meðvirk þjóð, samvinna þessara fyrirtækja og félaga er ótrúleg og afrek að tekist hafi að ná þeim öllum saman, fallega orðuð grein og mest um vert að virkjanir og háspennulínur eru afþakkaðar með öllu. Til hamingju.

Öræfi að eilífu.

Andri Snær:

Ég tel að þjóðgarður á hálendi Íslands sé ein af þessum stóru hugmyndum sem við getum látið verða að veruleika. Þjóðgarður myndi staðfesta mikilvægi og gildi náttúrunnar í sjálfri sér. Hálendið er hluti af sjálfsmynd okkar. Hálendið er kjarninn í ímynd Íslands og þjónar þannig öllum landsmönnum. 40.000 ferkílómetra þjóðgarður væru mikilvæg skilaboð út í heim þar sem náttúran á alls staðar í vök að verjast. 

Þess má svo geta að Davíð Oddsson og Ástþór Magnússon svöruðu spurningu Fréttablaðsins þar sem forsetaframbjóðendur voru spurðir hvort þeir vildu að miðhálendi Íslands yrði skilgreint sem þjóðgarður. Þar sagði Davíð að hugmyndin kæmi vel til greina og Ástþór sagði að honum fyndist það ágæt hugmynd að skilgreina slíkar náttúruperlur sem þjóðgarða. 

Guðni og Sturla hafa hins vegar ekki gefið upp afstöðu sína til þessara mála.

Hægt er að kynna sér og skrifa undir viljayfirlýsingu samtakanna á halendid.is